Byssur og byssumenning

Skotárásin í Newton Connecticut hefur verið kveikja af miklum deilum um byssur hér í Bandaríkjunum. Hver fréttaskýringaþátturinn á fætur öðrum er helgaður umræðum um byssulöggjöfina. Sumir þættirnir hafa verið áhugaverðir og fræðandi en yfirleitt eru þetta samt bara þættir þar sem fólk er mætt í sjónvarpið tilbúið að segja er að því virðist hvað sem fyrir málstaðinn, sem er ekki skemmtilegt. Málstaðurinn er þá annað hvort að það þurfi að gera það erfiðara fyrir fólk að nálgast byssur (svokallað pro gun-control fólk), eða að það þurfi að verja rétt byssueiganda (anti gun-control). Deilur um byssur í Bandaríkjunum fara alltaf af stað í kjölfar skotárása þar sem framin eru fjöldamorð, sérstaklega auðvitað þegar fórnarlömbin eru skólabörn. Í alþjóðlegum samanburði er fjöldi þeirra sem er drepinn með skotvopni mjög mikill í Bandaríkjunum. En þeir sem deyja í skotárás þar sem árásarmaðurinn skýtur fjölda manns (eins og t.d. í þessum skólaárásum) er mjög lágt hlutfall af þessum árásum. Með öðrum orðum, þrátt fyrir að þessar skólaárásir séu mjög alvarlegar þá er þær ekki einkennandi fyrir alvarlegasta vandamálið varðandi byssur í Bandaríkjunum.

Yfir 80 prósent þeirra sem deyja vegna skotsára eru skotnir með skammbyssu, og mjög hátt hlutfall árásarmannanna gengur með byssur og notar þær í því sem þeir telja sjálfsvörn. Það er að því leytinu til slæmt að þessar skotárásir séu upphaf og endir alls í þessari umræðu um byssur hér í Bandaríkjunum. Þetta eru auðvitað þau mál sem fá mesta fjölmiðlaumfjöllun og þess vegna er nánast eingöngu talað um þessi mál. En reyndar tengjast þessar (óvenjulegu) skotárásir því sem ég held að sé stór þáttur í hárri morðtíðni í Bandaríkjunum, eða menningunni. Menningu sem upphefur byssur og því sem þeim tengist, þá sérstaklega hugmyndin um að allir þurfi að vera tilbúnir að verja sig gagnvart mögulegri ógn.  En sá þáttur hefur ekkert verið til umræðu hér.

Þrátt fyrir að vera orðin frekar þreytt á þessari byssuumræðu hérna í Bandaríkjunum þá ákvað ég samt að setjast niður og skrifa nokkrar línur. Ég er þá að skrifa meira um deilurnar um byssurnar og rökin sem eru notuð í þeim deilum heldur en byssurnar sjálfar, því þær eru áhugaverðar (þar að segja umræðan ekki byssurnar).

Rök þeirra sem berjast fyrir rýmri byssulöggjöf er í aðalatriðum tvennskonar. Í fyrsta lagi er bent á að það sé stjórnarskrárréttur hvers Bandaríkjamanns að eiga og ganga með byssu. Fyrir sumum Bandaríkjamönnum er þessi réttur jafn mikilvægur og málfrelsið. Önnur grein Bandarísku stjórnarskránnar er orðrétt: A well regulated Militia, being necessary to the security of a free State, the right of the people to keep and bear Arms, shall not be infringed. Og svo þrætir fólk aðeins um nákvæma merkingu greinarinnar. Til dæmis er bent á að þegar þetta var skrifað voru ekki til vélbyssur (eða semi automatic og automatic guns, kannski er vélbyssa ekki rétta íslenska orðið) eins og í dag, og þess vegna ættu menn ekki að hafa rétt til þess að eiga vélbyssur. Helstu mótrökin eru að þar sem ríkisvaldið eigi vélbyssur þurfi borgararnir líka að eiga vélbyssur til að geta varið sig gegn mögulegri valdaníðslu ríkisvaldsins. Og þá gæti maður spurt sig hvort borgararnir eigi rétt á að eiga kjarnorkuvopn. Ég hef ekki heyrt neinn spyrja að því, en væri til í að heyra svar þeirra sem tala máli byssueigenda.

Í öðru lagi benda talsmenn byssueiganda á að til þess að draga úr glæpatíðni verði að koma fleiri byssum í umferð. Setningin sem haldið er á lofti er yfirleitt „to prevent gun violence we need to put guns in the hands of the good people“. Hugmyndin er að það sé fullt af vondu fólki í heiminum, glæpamönnum sem eru hvar sem er og hvenær sem er tilbúnir að fremja voðaverk. Þetta glæpafólk mun verða sér úti um byssur hvort sem það er ströng byssulöggjöf eða ekki. En ef glæpafólkið veit að það er fullt af góðu fólki sem er líka með byssur og tilbúið að nota þær til að verja sig þá mun það kannski hugsa sig tvisvar um áður en það heldur í sínar glæpaferðir. En þegar glæpafólkið lætur ekki segjast þá getur einhver af góða fólkinu með byssu skotið glæpamannin og þannig lágmarkað skaðan. Til dæmis var bent á að ef kennararnir í Sandy Hook Elementry (skólanum í Newton) hefðu verið vopnaðir hefðu þeir getað rifið upp vélbyssurnar sínar og endað harmleikinn mun fyrr.

Það eru þó nokkrar ástæður fyrir því að þessi rök eru að mínu mati afar slæm. Fyrst og fremst er hugmyndin um að samfélagið skiptist í tvo hópa, annars vegar glæpamenn og hins vegar ekki glæpamenn eða góða fólkið, aðeins í samræmi við þann veruleika sem birtist í Law & Order. Maður þarf ekki að hafa veigamikla þekkingu á réttarkerfi Bandaríkjanna (eða annarra vestrænna ríkja) til þess að átta sig á því að þetta er ekki svona einfald. Hvað með alla þá sem brjóta lögin en réttarkerfið hefur aldrei nein afskipti af? Flestir brjóta yfirleitt ekki lögin, sumir brjóta stundum lögin, og örfáir brjóta mjög oft lögin á vissu tímabili í lífi sínu. Hvort að réttarkerfið hefur afskipti af viðkomandi lögbrjóti fer ekki eingöngu eftir hegðun heldur líka stöðu í samfélaginu. Í þessu samhengi má líka benda á að engin þeirra sem hefur staðið fyrir mannskæðum skotárásum á undanförnum árum hér í Bandaríkjunum (eins og þessum skólaárásum) var á sakarskrá, og því ekki formlegir glæpamenn þar á ferð.

Fólk sem styður herta byssulöggjöf bendir fyrst og fremst á að það þurfi að framfylgja þeim lögum sem eru núþegar til staðar betur. Nánast engin fullyrðir að banna þurfi byssur algjörlega. Þrátt fyrir að viðhorf Bandaríkjamanna til byssueigna hafi verið að breytast á undanförnum áratugum þá eru þeir ekki komnir þangað ennþá. Á síðustu áratum hefur hlutfall Bandaríkjamanna sem styður herta byssulög verið að hækka. Þetta er auðvitað mismunandi á milli fylkja, fólk í Suðurríkjunum er sérstaklega líklegt til að hafa mikið dálæti á byssum en fólk á Austurströndinni ekki.

Pro gun-control fólkið vill að það verði bannað algjörlega að venjulegir borgarar geti átt sjálfvirkar byssur (sem er líklega betra orð en vélbyssur). Það er bent á að það þurfi að skoða vel bakgrunn allra þeirra sem ætli að kaupa byssur, þá með tilliti til hvort viðkomandi er á sakarskrá eða greindur með geðsjúkdóm. Í stuttu máli, því erfiðara sem það er fyrir fólk að nálgast byssur því betra. Hér er auðvitað vert að benda á að athuga bakgrunn kaupanda hefði ekki haft nein áhrif á neina árásarmenn í þessum skólaárásum. Því þrátt fyrir að a.m.k. einn hafi verið greindur með þunglyndi þá komust þeir allir í vopnin hjá foreldrum sínum.

Það er mjög erfitt að segja til um það með einhverri nákvæmni hverjar afleiðingar eru af breyttri löggjöf, þar að segja áhrif á afbrotatíðni. Eins og með flesta samfélagslega þætti þá er nánast ómögulegt að stjórna fyrir öðrum þáttum sem gætu verið að hafa áhrif. Þar sem að byssulöggjöfin er ólík milli fylkja hafa menn skoðað hvort að breytingar í einu fylki verði til þess að afbrotatíðnin þar fylgi öðru munstri en annarstaðar. En þar sem að löggjöfin smitast yfir í næstu fylki er þetta ekki fullkomin leið (þetta er ekki eiginlegt tilraunasnið eins og einhverjir hafa haldið fram). Ef erfitt er að nálgast byssur í einu fylki en auðvelt í því næsta er líklegt að fólk ferðist milli fylkja til að verða sér út um byssur. Það eru allir fræðingar sammála því að það þurfi að samræma löggjöfina milli fylkja. Með alla fyrirvara í huga, eru samt frekar sterkar vísbendingar um að hafa það ólöglegt að ganga um með byssur (concealed weapons), í borgum þar sem lögreglan gerir töluvert af því að stoppa fólk og leita af skotvopnum (stop and frisk) dragi úr glæpum þar sem notaðar eru byssur (t.d. vopnuðum ránum og skotárásum).

Ég bað nemendur mína um daginn að segja mér fyrsta orðið sem kæmi upp í hugann þegar ég nefndi „byssur“ og ég fékk vissulega orð sem ég átti von á, eins og crime, police, death. En ég fékk samt oftar orð eins og safe, sexy, cool, power, protection. Þessir nemendur eru flestir 18 til 19 ára, á fyrsta ári í háskóla (College). Það að upplifa að byssur veiti fólki vörn eða jafnvel völd er að mínu mati stór hluti af vandanum.

Það hefur orðið til orðræða hér í amerískum fjölmiðlum um að skotárásarmennirnir sem hafa á síðustu árum orðið bekkjafélögum sínum og kennurum að bana hafi verið félagslega fatlaðir einfarar sem hafi allt í einu snappað. Í raun hafa flestar þessara skotárása verið mjög skipulagðar. Skotárásarmennirnir hafa ekki verið einfarar heldur strákar sem þráðu að öðlast virðingu og vinskap skólafélaga sinna, þá sérstaklega vinsælu íþróttastrákanna sem allir dýrka. Þeir hafa reynt án árangurs að fá jákvæða athygli bekkjafélaga sinna. Fleiri en einn af þessum strákum sagði bekkjafélögum sínum frá því að hann myndi mæta með byssu í skólann einn daginn og skjóta, og við það fengu þeir athygli. Einn af þessum drengjum sagði frá því í viðtali eftir skotárásina að hann hefði viljað hætta við en ekki getað það af því að hann var búinn að vera tala svo mikið um þetta og hræddur um að strákunum finndist hann algjör loser. Í stuttu máli þá virðist sem það hafi verið einkennandi hjá þessum strákum að byssurnar og þessar skotárásir hafi átt að veita þeim einhver völd og virðingu sem þá skorti í sínu daglegu lífi. Harvard prófessorinn Katherine Newman gerði á þessu mjög ítarlega rannsókn sem hún skrifar um í bókinni sinni Rampage: The Social Roots of School Shootings. Hér má líka sjá áhugavert viðtal við hana.

Minn punktur er bara að menning hefur áhrif. Ég upplifi að Bandaríkjamenn séu of uppteknir af því að vera í stríði. Þeir eru ekki bara í stríði við einhverja óvini í miðausturlöndum heldur líka við óvini úti á götu, við vonda manninn. Það er ótrúlega oft sem fullorðið fólk talar um að það þurfi að gera hitt og þetta við „the bad guy“. Ég veit að flestir þessarra ungu skotárásarmanna hafa eflaust átt við einhver sálræn vandamál að stríða. En svo voru þeir líka að reyna að ganga í augun á hinum, vera stórir kallar, láta taka eftir sér. Við vissar aðstæður, í samfélagi þar sem hermenn eru aðalhetjurnar munu einhverjir taka uppá svona vitleysi til að reyna að ná athygli og öðlast virðingu og völd. Þeir eru auðvitað að misreikna sig með virðinguna, en vissulega hafa þeir allir fengi svakalega athygli. Það væri gott ef það að geta samið fallegt ljóð þætti sexy, cool og powerful.

 

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *