Tekjublað Frjálsrar Verslunar

Fyrir nokkrum árum vann ég rannsókn fyrir Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu þar sem fókusinn var á þýfi og þýfismarkað. Ég tók viðtöl við allskonar innbrotsþjófa. Ég byrjaði á því að taka viðtal við mann í fangelsi sem hafði lítinn áhuga á því að tala við mig. Erlendar rannsóknir hafa einmitt fjallað um vandamál sem tengjast því að taka viðtöl við fanga, til dæmis að þeir treysti því ekki þegar rannsakandinn lofar nafnleynd. Með ýmsum leiðum fann ég því 8 aðra einstaklinga sem voru annað hvort virkir eða fyrrum innbrotsþjóðfar, flestir viðmælendur mínir höfðu hlotið dóm fyrir augðunarbrot. Þetta var áhugaverð rannsókn þar sem viðmælendur lýstu ferlinu frá því að velja sér stað yfir í að losa sig við þýfið.

Flestir viðmælendur mínir höfðu mun meiri reynslu af því að brjótast inní fyrirtæki heldur en heimahús, og völdu yfirleitt fyrirtæki framyfir heimahúsið þar sem þeim fannst erfiðara að réttlæta að stela frá fólki heldur en „einhverju tryggðu fyrirtæki“. Mér var sagt að til þess að brjótast inná heimili fólks þyrfti viðkomandi að vera frekar „langt leiddur“ eða í „mikilli neyð“, þá yfirleitt fíkn. Ég heyrði af nokkrum töluvert skipulögðum innbrotum í fyrirtæki en aldrei í heimahús. Flestar lýsingar af innbrotum í heimahús voru þannig að viðkomandi var í öðrum erindagjörðum þegar hann koma auga á tækifæri, til dæmis opin glugga. Mér var líka sagt frá því þegar fólk braust inná heimili sem það þekkti eitthvað til, hafði til dæmis verið þar áður í partýi og komið auga á hluti sem þjófurinn vissi að auðvelt yrði að koma í verð. Hversu auðvelt eða erfitt yrði að losna við þýfið var oft  gefið sem megin áhrifavaldur í því hvort hlut var stolið.

Fjölmargar erlendar rannsóknir sýna einmitt að það eru aðallega tveir megin þættir sem hafi áhrif á hvernig innbrotsþjófar velja hús til að brjótast inní. Annars vegar þekking eða kunnugleiki, og hins vegar tækifæri eða hentugleiki.

  • Þekking eða kunnugleiki

Öfugt við það sem flestir halda þá er algengara að fólk brjótist inní hús í sínu eigin hverfi. Það er óalgengt að menn (konur eru líka menn) ferðist inní „ríka hverfið“ til að brjótast inní einhvert hús sem það veit ekkert um, veit t.d. ekki hvort er með þjófarvarnarkerfi, hvernær fólk er heima, hvaða hlutir eru líklegir til að vera inní húsinu, hvort lásar séu í góðu ásigkomulagi og þvíumlíkt. Þetta eru hlutir sem menn öðlast upplýsingar um þegar þeir eru ekki endilega að leita af „réttu“ húsi til að brjótast inní, frekar þegar þeir eru á leiðinni í vinnuna, eða úti að labba með hundinn. Þess vegna er sambandið á milli fjölda innbrota og fasteignaverðs ekki sterkt. En í hverfum þar sem húsin eru flest stór og líta úr fyrir að þar búi ríkt fólk er stærsta og flottasta húsið yfirleitt ekki valið, það er talið líklegra til að vera vel varið (t.d. með góðri þjófarvörn). Hús sem eru nálægt verslunarsvæðum eru líklegri til verða fórnarlamb innbrotsþjófa þar sem fleiri eiga leið framhjá þeim húsum, fleiri vitni af því ef fólk gleymir að loka glugga.

  • Tækifæri eða hentugleiki

Í stuttu máli snýst þetta um hversu auðvelt er að brjótast inní húsið óséður. Þessi þáttur er auðvitað tengdur þessum hér fyrir ofan. Til dæmis eru flest hús sem brotist er inní mannlaus, en innbrotsþjófarnir verða að vita að það er enginn heima. Það er þekkt að prófað er að hringja á dyrabjöllu til að athuga aðstæður. Einnig mjög mikilvæg spurning, er einhversstaðar ólæst hurð, gluggi, eða er Securitas miði í gluggunum? Oft er securitas miðinn nóg til að fæla þjófa frá. Í mínum viðtölum sögðu menn frá því að það væri hægt að brjótast inní hús þrátt fyrir að það væri vaktað af Securitas  en að það væri meira vesen og meira vesen þýðir alltaf minni líkur á innbroti. Eru nágrannar sýnilegir? Því fleiri nágrannar sem þekkjast því minni líkur á innbroti. Er bakgarður? Koma tré í veg fyrir að nágrannar taki eftir viðkomandi? Geltir hundur þegar einhver gengur að húsinu? Hvernig er lýsingin fyrir framan húsið? Hversu auðvelt er að komast í burtu?

Fólk getur svo sem gert ýmislegt til að minnka líkur á innbroti. Best er að gera ráðstafanir áður en hús eru keypt. Þá er gott að spyrja sig hvernig aðgengið er til og frá húsinu. Miðlungs hús, í bottlanga, nálægt mannmörgum götum sem hægt er að komast inní á fleiri en einum stað, stöðum sem eru skýldir (þar sem hægt er að athafna sig án þess að gangandi vegfarendur verða þess varir) eru líklegust til að vera valin af innbrotsþjófum. Svo þarf fólk auðitað að tryggja að öllu sé vel læst. Ef viðkomandi er mikið af heiman er ráð að kynnast sem flestu heimavinnandi fólki í götunni, þannig að það verði vart við ókunnuga á lóðinni þinni og sé jafnvel tilbúið að spyrja hvaða erindi fólk eigi. Og að lokum, ekki vera dónalegur við fólk sem vinnur í hvefinu þínu, stundum eru hús valin í hefndarskyni. Kannski best að taka enga sénsa og vera bara alltaf kurteis.

Það er hins vegar ekki í takt við neitt sem ég hef nokkurn tímann lesið eða skoðað að innbrotsþjófar leiti sér að fórnarlambi með því að afla sér upplýsingar um tekjur einstaka húseiganda. Þegar maður hugsar um ofangreinda þætti, af hverju ætti það þá að skipta máli?

Ef einhver þekkir innbrotsþjóf sem hefur fundið sér fórnarlamb með því að lesa Tekjublað Frjálsrar Verslunar væri ég rosalega mikið til í að heyra af því. Eða enn betra, ef einhver er innbrotsþjófur sem hefur notað Tekjublaðið sér til gagnaöflunar þá væri áhugavert að heyra það. Það má til dæmis senda mér tölvupóst.

Posted in Uncategorized | 2 Comments

Símon

Hann Egill minn hefur eignast vin. Hann heitir Simon er bara rúmlega 2 ára. Simon á mömmu frá Króatíu og pabba frá Rússlandi, en sjálfur fæddist hann í New York. Simon skilur króatísku, rússnesku, og ensku en talar voðalega lítið. Honum er líka alveg sama þó að Egill tali lítið. Þeir bara herma eftir hvor öðrum, skiptast á bílum og hlæja. Símoni virðist líka alveg sama þó að Egill hlaupi allt í einu í burtu eða standi stundum alltof nálægt honum, eins og hann sé að rannsaka í honum augun.

Egill gerir krúttlegustu og jafnframt undarlegustu hluti. Þegar hann var búin að biðja mig um að hjálpa sér að taka í sundur bílinn sem hann var að leika við á leikvellinum í dag og ég búin að segja nei, gekk hann upp að ókunnugri konu, stóð alltof nálgæt henni, leit upp og sagði ‚help me‘ mjög alvarlegur. Þegar konan byrjaði að tala um eitthvað og sýndi sig ekki líklega til að hjálpa honum að taka í sundur bílinn, fann hann næsta mann og sagði ‚help please‘. Egill notar bara tvö orð í einu.

Þrátt fyrir allar bækurnar og greinarnar sem ég hef lesið um einhverfu þá finnst mér samt erfitt að átta mig á þessari einhverfu hans Egils. Egill er mjög langt frá því að vera félagsfælinn, hann hefur mikla þörf fyrir samskipti og nánd. En aðferðir hans við að eiga í samskiptum eru oft pínu skrítnar, sérstaklega við fólk sem hann þekkir lítið. Suma daga hef ég pínu áhyggjur af honum en flesta daga er ég samt bara aðalega glöð að eiga glaðan strák.

Posted in Einhverfa | Leave a comment

Nokkur orð um dularfulla Píratamálið

Það hefur auðvitað verið sérstaklega áberandi á síðustu árum að í íslensku stjórnkerfi hefur skort gegnsæi og að íslenskir stjórnmálamenn þurfa ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Hér er ég ekkert sérstaklega að vísa í síðustu fjögur ár. Ég held að beint lýðræði geti dregið úr spillingu í stjórnmálu. Ég hef jafnframt áhyggjur af því að fólk sé tilbúið að fórna upplýsingafrelsi vegna hræðsluáróðus fólks í hagsmunapólitík. Þess vegna kaus ég Pírata. Ég kaus utankjörstaðar og búin að senda atkvæðið mitt til Íslands. Ég hef einnig haft trú á Birgittu Jónsdóttur, að hún sé að minnsta kosti heiðarleg.

Í dag hafa fjölmiðlar vakið athygli á tveimur málum sem hefur orðið til þess að ég hef áhyggjur af því að hafa gert mistök með því að kjósa Pírata. Annars vegar er það fréttin af „frambjóðandanum sem hatar konur“. Ingi Karl er í 9. sæti Pírata í Norðausturkjördæmi. Nýleg skrif Inga Karls á internetið gefa ekki einungis til kynna að hann sé fullur af kvennfyrirlitningu, heldur líka að hann sé illa gefinn. Píratar virðast sammála um að þessi ummæli Inga séu vægast sagt ósmekkleg og óafsakanleg.

Hins vegar hefur einhver fundið grein sem Jón Þór skrifaði á mbl árið 2006. Jón Þór er í 1. Sæti Pírata í Reykjavík Suður. Að mínu mati er grein Jón Þórs meira áfall fyrir Pírata heldur en ruglið í Inga Karli. Það er mjög ólíklegt að Ingi Karl muni koma til með að hafa nokkur áhrif, sérstaklega eftir daginn í dag. Jón Þór gæti hins vegar, ef Píratar fá góða kosningu, haft áhrif.

Greinin sem Jón Þór skrifaði einkennist af karlrembu og fáfræði um jafnréttismál. Greinin er 7 ára gömul og því má vel vera að Jón Þór hafi þroskast og kannski myndi hann aldrei hafa skrifað samskonar grein í dag. En málið er að við vitum það ekki. Ólíkt því sem á við um skrif Inga Karls þá hafa einhverjir Píratar varið grein Jón Þórs, og ekkert heyrst frá honum sjálfum um málið svo ég viti til.

Hér er grein Jón Þórs, og mínar athugasemdir og spurningar inn á milli (grein Jón Þórs er feit- og skáletruð).

Hvað vilja konur og karlar?

AFLIÐ sem býr í kvenréttindahreyfingunni hefur tryggt konum mörg þau réttindi sem þær eiga réttilega að hafa og enn má betur gera, en nú er þetta sama afl farið að kúga margar konur og leiða aðrar á villigötur.

Byltingin étur börnin sín

Margar ungar mæður sem vilja vera heimavinnandi og ala upp börnin sín, þora varla að segja frá því að þær séu ekki líka í námi eða vinnu. Þær fá oft spurninguna hvort þær séu “bara” að hugsa um barnið. Ímyndin er að sjálfstæðar konur fara út á vinnumarkaðinn. Það þykir ekki flott í dag að vera heimavinnandi móðir. Þetta er sorglegt virðingarleysi við hlutverk sem leggur grunninn að heilbrigðum einstaklingum og samfélagi, móðurhlutverkið.

Er þetta ólíkt þeim viðhorfum sem fólk hefur gagnvart körlum sem eru heima að hugsa um börnin sín? Heldur Jón Þór að karlar sem eru „bara“ heima fái ekki svipaðar spurningar? Mér þykir líklegt að karlmenn sem vilja vera heimavinnandi og ala upp börnin sín, og vera ekki í námi eða vinnu á meðan, séu mun frekar litnir hornauga heldur en konur sem gera slíkt hið sama. Vandamálið er því ekki viðhorf til heimavinnandi kvenna, heldur að uppeldi barna er ekki metið jafn mikilvægt og starfsframi. Þar að segja ef þetta er raunverulegt viðhorf í samfélaginu, sem ég get svo sem ekkert frekar en Jón Þór fullyrt um án þess að hafa gert á því einhverskonar rannsókn.

Þetta er sorglegt virðingarleysi við hlutverk sem leggur grunninn að heilbrigðum einstaklingum og samfélagi, móðurhlutverkið. Gæti verið að aukin ofbeldishneigð ungs fólks megi að einhverju leyti rekja til vanræktra lyklabarna sem alin voru upp af sjónvarpi og tölvuleikjum?

Telur Jón Þór móðurhlutverkið vera mikilvægra en föðurhlutverkið? Rannsóknir hafa einmitt sýnt að uppeldisaðferðir hafa mikil áhrif á velferð og hegðun barna. En engin rannsókn (sem ég veit af) hefur sýnt að það skipti meira máli að foreldrið sem sinni uppeldinu í meira mæli sé kona.

Konur eiga rétt á því að velja sér störf sem þær vilja vinna og fá fyrir vinnuna sömu laun og karlmenn. Eiga þær að leggja jafnt af mörkum og karlmenn, en fá minna fyrir? Konur með sjálfsvirðingu sætta sig auðvitað ekki við slíkt.

Það eru ekki mörgum karlmönnum sem finnast rykfríar hillur og skínandi gólf það mikilvæg að þeir vilji eyða tíma sínum í slík þrif. Eiga þeir að leggja jafnmikið af mörkum og konur við að vinna verk sem þeir fá minna út úr? Karlmenn með sjálfsvirðingu sætta sig ekki við slíkt.

Af hverju heldur Jón Þór að konur telji hreint heimili það mikilvægt að þær vilji eyða sínum tíma í slíkt? Það er yfirleitt alltaf mjög slæm hugmynd að alhæfa út frá eigin reynslu.

Til að fá fólk til að gera það sem það vill ekki gera þarf að þvinga það undir vald sitt; gera það að undirlægjum.

Er Jón Þór að segja að konur sem reyna að fá eiginmenn sína til þess að taka þátt í heimilisstörfum séu að gera þá að undirlægjum?

Vilja konur virkilega mjúka menn?

Rannsóknir sýna að á egglostímabilinu falla konur fyrir sterkum, óhefluðum karlmönnum og sjálfsöryggi er yfirleitt efst, og alltaf ofarlega, á listanum yfir það sem konur falla fyrir í fari karlmanna. Eflaust er samt til sú kona sem vill búa með manni sem er undirlægja. En þótt það sé þægilegt að eiga hlýðinn mann, spurðu sjálfa þig hve lengi þú munir haldast hrifin af undirlægju.

Kveikir undirlægja í þér?

Í alvöru? Hvaða rannsókn? Það þarf enga rannsókn til að átta sig á því að konur vilji frekar stunda kynlíf þegar þær hafa egglos. Líklega vilja konur frekar stunda kynlíf með körlum sem þeim þykir líkamlega aðlaðandi. Hvað konum þykir líkamlega aðlaðandi er breytilegt, fer eftir stað og stund. Þar að segja, konum þótti öðruvísi týpur aðlaðandi fyrir t.d. 100 árum heldur en í dag.

Sjálfstætt fólk fer á eftir því sem það vill

Karlmenn vilja finna frið í faðmi elskunnar sinnar; finna að þar eigi þeir heima. En heimilið er ekki lengur griðastaður. Það er orðið vígvöllur þar sem barist er um heimilisstörf og þess háttar. Sjálfstæðir karlmenn sem sætta sig ekki við að sóa lífinu í rifrildi og vilja vernda tilvonandi börn sín fyrir því að alast upp við stríðsástand, leita þar til þeir finna konu sem finnst mikilvægara að veita fjölskyldu sinni griðastað en að rífast um heimilisverk; konu með fjölskyldufaðm, þar sem frið er að finna. Það er auðvelt að gleyma því sem við viljum í raun og fórna meiru fyrir minna.

Hér virðist Jón Þór vera að mæla með því að til þess að koma í veg fyrir ágreining hjóna þá þurfi að fara tilbaka um ca 50 ár í jafnréttismálum. Ef að heimilið breytist í vígvöll þegar kona fer fram á jafna ábyrgð á uppleldi barna og heimilisstörfum er það ábending um að karlinn þurfi að endurskoða viðhorf sín til hlutverki kynjanna. Kannski voru konur ekki eins hamingjusamar í daga Mad Men þáttanna og Jón Þór virðist halda.

Höfundur er nemi og virkur baráttumaður fyrir réttindum kvenna og gegn kynbundnu ofbeldi.

Og það er auðvitað spaugilegt að greinin endi á þessum orðum.

Það að Jón Þór hafi verið karlremba fyrir 7 árum þarf ekki að þýða að hann sé það í dag. En það er rosa mikilvægt fyrir þá sem eru enn að hugsa um að kjósa Pírata að vita hvort Jón Þór sé karlremba ennþá, því það getur haft raunverulegar afleiðingar fyrir fólk á Íslandi.

Posted in Uncategorized | 10 Comments

Einelti

Við búum í fjölbýlishúsi sem er fullt af fjölskyldum með börn sem leika sér í sameiginlegu leikherbergi. Egill minn hefur mjög gaman af því að leika sér í leikherberginu. Hann fylgist með hinum krökkunum og reynir að leika við þau, sem tekst ekki alltaf vel. Agli gengur ágætlega að leika ef krakkarnir eru í einhverskonar eltingaleik þar sem þau eru ekki mikið að tala, eða ef hann og aðeins eitthvað eitt annað barn er í leikherberginu. Ef börnin hafa engan annan til að leika við hafa þau yfirleitt meiri umburðarlyndi gagnvart öðruvísi hegðun Egils. Þegar börnin tala við Egil bregst hann yfirleitt við með því að endurtaka það sem þau segja, að segir eitthvað sem engin skilur, eða svarar ekki. Í gær spurði lítil stelpa Egil endurtekið hvað hann héti og alltaf kingaði Egill kolli án þess að segja orð.

Þrátt fyrir að Egill skilji nánast allt bæði á ensku og íslensku þá er hann á eftir í málþroska. Agli hefur farið töluvert fram í tjáningu en hann á samt enn erfitt með venjuleg samskipti. Oft er það þannig að Egill er skilinn útundan, honum er sagt að hann að megi ekki leika með eða jafnvel að börnin reyni að meiða hann. Mér þykir fátt eins erfitt og að fylgjast með þessu. Egill reyndar virðist ekki taka þessu mjög nærri sér, hann annað hvort fer að leika sér einn við eitthvað annað eða heldur áfram að reyna að leika við börnin. Ég held áfram að að fara með Egil í leikherbergið því honum finnst það ekki bara gaman, það er líka mjög þroskandi fyrir hann.

Krakkar á einhverfurófinu eru miklu líklegri en aðrir krakkar til þess að lenda í einelti. Í könnun sem gerð var á tilviljunarúrtaki einhverfra barna á aldrinum 6-15 ára sögðust yfir 60 prósent hafa lent í einelti í skóla. Almennt er talið að um 10 prósent barna upplifi einhverkonar einelti á ævinni. Afleiðingar eineltis eru yfirleitt skelfilegar. Umræðan um einlelti á síðustu árum hefur að mínu viti verið til fyrirmyndar. Það virðist vera sem kennarar og aðrir séu orðnir töluvert meðvitaðir um að einelti sé alvarlegt og að það eigi ekki að líðast. Ég hef samt verulegar áhyggjur af þekkingaskorti þegar kemur að þessum málum hjá einhverfum krökkum.

Þrátt fyrir að fólk almennt sé misjafnlega félagslynt eða fært í mannlegum samskiptum þá erum við félgasverur. Félagsleg einangrun fer mjög illa með geðheilsu fólks vegna þess að við þurfum á öðru fólki að halda eins og við þurfum á góðri næringu að halda, skortur á hvorutveggja fer illa með heilsuna. Ég held að versta ranghumyndin um fólk á einhverfurófinu sé einmitt að þau hafi ekki þörf fyrir annað fólk eða finni ekki til samskenndar. Það sem er rétt er að einhverfir eiga erfiðara með samskipti, þau skortir félagsfærni sem við hin virðumst hafa lítið fyrir, og viðbrögð þeirra geta oft verið undarleg (eða sem okkur hinum finnst undarleg).

Sú hugmynd sem fólk hefur um einhverfa hefur auðvitað áhrif á hvernig er komið fram við þau. Ef almennt er talið að einhverf börn vilji vera ein er ekki líklegt að brugðist sé við þegar þau eru skilin útundan. Ef einhverfir eru taldir skorta samkennd er hætt við því að þegar fólk gerir eitthvað sem talið er einkennast af skorti af samkennd (einhverskonar siðblindu) sé það fólk stimplað sem einhverft. Dæmi um þetta er eftir að maður réðst með hnífi á lögmann var haft eftir geðlækni að maðurinn hefði sýnt einhverfueinkenni, sem er miðað við lýsingarnar algjörlega af og frá. Þessi stimplun getur svo orðið til þess að ýta enn frekar undir fordóma gagnvart einhverfum.

Undanfarið hef ég verið að lesa töluvert af texta sem er skrifaður af fólki með einhverfu. Sumir einstaklingarnarir eru mjög mikið einhverfir og tjá sig eingöngu með því að skrifa. Þetta hefur auðvitað verið mjög áhugaverð lesning. Til dæmis lýsir Sue Rubin því að hana langi oft að vera meira í kringum fólk en að einhverfan sín leyfi sér það ekki. Hún lýsir bæði ótta og að hún hafi ekki alltaf stjórn á hegðun sinni. Hún segir frá því að hún sé heilluð af tölum (á fatnaði), með einskonar þráhyggju og að hún hafi gengið upp að ókunnugu fólki og snert tölurnar á fötunum þeirra. Hún veit hvað þetta er óviðeigandi þegar hún er að gera þetta og langar þess vegna ekki til þess en hún bara geti stundum ekki sleppt því að koma við töluna. Í hennar tilfelli veldur óttinn við viðbrögðum fólks því að hún velur oft að vera ein, en hún segist einnig vera búin að gera sér grein fyrir því að hún verði að reyna á sig, að það að blanda geði við annað fólk sé henni mjög mikilvægt. Hún segir orðrétt:

I have found in my experience that it is very hard for an autistic person to initiate relations with others. This does not mean that we do not desire communication. Instead our social rules are not socially acceptable. I have explained many times that my inability to look at someone when speaking to him or her does not mean I am avoiding the person as many presume. Sometimes, eye contact literally is painful for me to achieve.

Þrátt fyrir að Egill leiði oft fólk sem hann þekkir ekki hjá sér, og er eins hann sé algjörlega heyrnalaus þegar það talar við hann, er hann samt mjög hlýr og mikil félagsvera. Hann hefur þörf fyrir snertingu, hann klappar litlum börnum ofurvarlega og segir um leið „baby“, hann gefur mömmu sinni síðasta bitann af uppáhalds sætabrauðinu sínu ef hún biður um það og er alltaf glaður. Hann er klárlega minn uppáhalds sonur.

Ég vona að sem flestir foreldrar kenni börnum sínum að hafa umburðarlyndi fyrir krökkum sem eru öðruvísi. Í raun er eina almennilega leiðin til að kenna börnum umburðarlyndi er að vera umburðarlynd sjálf. Börnin okkar eru alltaf að fylgjast með okkur. Við þurfum því að vanda okkur við að tala vel um alla (og sleppa því að tala um fólk sem við ómögulega getum talað vel umJ), og koma vel fram við allkonar fólk, líka fólk sem okkur finnst pínu skrítið. Samkennd er miklu meira smart en ótti og dómharka.

Posted in Einhverfa | Leave a comment

Byssur og byssumenning

Skotárásin í Newton Connecticut hefur verið kveikja af miklum deilum um byssur hér í Bandaríkjunum. Hver fréttaskýringaþátturinn á fætur öðrum er helgaður umræðum um byssulöggjöfina. Sumir þættirnir hafa verið áhugaverðir og fræðandi en yfirleitt eru þetta samt bara þættir þar sem fólk er mætt í sjónvarpið tilbúið að segja er að því virðist hvað sem fyrir málstaðinn, sem er ekki skemmtilegt. Málstaðurinn er þá annað hvort að það þurfi að gera það erfiðara fyrir fólk að nálgast byssur (svokallað pro gun-control fólk), eða að það þurfi að verja rétt byssueiganda (anti gun-control). Deilur um byssur í Bandaríkjunum fara alltaf af stað í kjölfar skotárása þar sem framin eru fjöldamorð, sérstaklega auðvitað þegar fórnarlömbin eru skólabörn. Í alþjóðlegum samanburði er fjöldi þeirra sem er drepinn með skotvopni mjög mikill í Bandaríkjunum. En þeir sem deyja í skotárás þar sem árásarmaðurinn skýtur fjölda manns (eins og t.d. í þessum skólaárásum) er mjög lágt hlutfall af þessum árásum. Með öðrum orðum, þrátt fyrir að þessar skólaárásir séu mjög alvarlegar þá er þær ekki einkennandi fyrir alvarlegasta vandamálið varðandi byssur í Bandaríkjunum.

Yfir 80 prósent þeirra sem deyja vegna skotsára eru skotnir með skammbyssu, og mjög hátt hlutfall árásarmannanna gengur með byssur og notar þær í því sem þeir telja sjálfsvörn. Það er að því leytinu til slæmt að þessar skotárásir séu upphaf og endir alls í þessari umræðu um byssur hér í Bandaríkjunum. Þetta eru auðvitað þau mál sem fá mesta fjölmiðlaumfjöllun og þess vegna er nánast eingöngu talað um þessi mál. En reyndar tengjast þessar (óvenjulegu) skotárásir því sem ég held að sé stór þáttur í hárri morðtíðni í Bandaríkjunum, eða menningunni. Menningu sem upphefur byssur og því sem þeim tengist, þá sérstaklega hugmyndin um að allir þurfi að vera tilbúnir að verja sig gagnvart mögulegri ógn.  En sá þáttur hefur ekkert verið til umræðu hér.

Þrátt fyrir að vera orðin frekar þreytt á þessari byssuumræðu hérna í Bandaríkjunum þá ákvað ég samt að setjast niður og skrifa nokkrar línur. Ég er þá að skrifa meira um deilurnar um byssurnar og rökin sem eru notuð í þeim deilum heldur en byssurnar sjálfar, því þær eru áhugaverðar (þar að segja umræðan ekki byssurnar).

Rök þeirra sem berjast fyrir rýmri byssulöggjöf er í aðalatriðum tvennskonar. Í fyrsta lagi er bent á að það sé stjórnarskrárréttur hvers Bandaríkjamanns að eiga og ganga með byssu. Fyrir sumum Bandaríkjamönnum er þessi réttur jafn mikilvægur og málfrelsið. Önnur grein Bandarísku stjórnarskránnar er orðrétt: A well regulated Militia, being necessary to the security of a free State, the right of the people to keep and bear Arms, shall not be infringed. Og svo þrætir fólk aðeins um nákvæma merkingu greinarinnar. Til dæmis er bent á að þegar þetta var skrifað voru ekki til vélbyssur (eða semi automatic og automatic guns, kannski er vélbyssa ekki rétta íslenska orðið) eins og í dag, og þess vegna ættu menn ekki að hafa rétt til þess að eiga vélbyssur. Helstu mótrökin eru að þar sem ríkisvaldið eigi vélbyssur þurfi borgararnir líka að eiga vélbyssur til að geta varið sig gegn mögulegri valdaníðslu ríkisvaldsins. Og þá gæti maður spurt sig hvort borgararnir eigi rétt á að eiga kjarnorkuvopn. Ég hef ekki heyrt neinn spyrja að því, en væri til í að heyra svar þeirra sem tala máli byssueigenda.

Í öðru lagi benda talsmenn byssueiganda á að til þess að draga úr glæpatíðni verði að koma fleiri byssum í umferð. Setningin sem haldið er á lofti er yfirleitt „to prevent gun violence we need to put guns in the hands of the good people“. Hugmyndin er að það sé fullt af vondu fólki í heiminum, glæpamönnum sem eru hvar sem er og hvenær sem er tilbúnir að fremja voðaverk. Þetta glæpafólk mun verða sér úti um byssur hvort sem það er ströng byssulöggjöf eða ekki. En ef glæpafólkið veit að það er fullt af góðu fólki sem er líka með byssur og tilbúið að nota þær til að verja sig þá mun það kannski hugsa sig tvisvar um áður en það heldur í sínar glæpaferðir. En þegar glæpafólkið lætur ekki segjast þá getur einhver af góða fólkinu með byssu skotið glæpamannin og þannig lágmarkað skaðan. Til dæmis var bent á að ef kennararnir í Sandy Hook Elementry (skólanum í Newton) hefðu verið vopnaðir hefðu þeir getað rifið upp vélbyssurnar sínar og endað harmleikinn mun fyrr.

Það eru þó nokkrar ástæður fyrir því að þessi rök eru að mínu mati afar slæm. Fyrst og fremst er hugmyndin um að samfélagið skiptist í tvo hópa, annars vegar glæpamenn og hins vegar ekki glæpamenn eða góða fólkið, aðeins í samræmi við þann veruleika sem birtist í Law & Order. Maður þarf ekki að hafa veigamikla þekkingu á réttarkerfi Bandaríkjanna (eða annarra vestrænna ríkja) til þess að átta sig á því að þetta er ekki svona einfald. Hvað með alla þá sem brjóta lögin en réttarkerfið hefur aldrei nein afskipti af? Flestir brjóta yfirleitt ekki lögin, sumir brjóta stundum lögin, og örfáir brjóta mjög oft lögin á vissu tímabili í lífi sínu. Hvort að réttarkerfið hefur afskipti af viðkomandi lögbrjóti fer ekki eingöngu eftir hegðun heldur líka stöðu í samfélaginu. Í þessu samhengi má líka benda á að engin þeirra sem hefur staðið fyrir mannskæðum skotárásum á undanförnum árum hér í Bandaríkjunum (eins og þessum skólaárásum) var á sakarskrá, og því ekki formlegir glæpamenn þar á ferð.

Fólk sem styður herta byssulöggjöf bendir fyrst og fremst á að það þurfi að framfylgja þeim lögum sem eru núþegar til staðar betur. Nánast engin fullyrðir að banna þurfi byssur algjörlega. Þrátt fyrir að viðhorf Bandaríkjamanna til byssueigna hafi verið að breytast á undanförnum áratugum þá eru þeir ekki komnir þangað ennþá. Á síðustu áratum hefur hlutfall Bandaríkjamanna sem styður herta byssulög verið að hækka. Þetta er auðvitað mismunandi á milli fylkja, fólk í Suðurríkjunum er sérstaklega líklegt til að hafa mikið dálæti á byssum en fólk á Austurströndinni ekki.

Pro gun-control fólkið vill að það verði bannað algjörlega að venjulegir borgarar geti átt sjálfvirkar byssur (sem er líklega betra orð en vélbyssur). Það er bent á að það þurfi að skoða vel bakgrunn allra þeirra sem ætli að kaupa byssur, þá með tilliti til hvort viðkomandi er á sakarskrá eða greindur með geðsjúkdóm. Í stuttu máli, því erfiðara sem það er fyrir fólk að nálgast byssur því betra. Hér er auðvitað vert að benda á að athuga bakgrunn kaupanda hefði ekki haft nein áhrif á neina árásarmenn í þessum skólaárásum. Því þrátt fyrir að a.m.k. einn hafi verið greindur með þunglyndi þá komust þeir allir í vopnin hjá foreldrum sínum.

Það er mjög erfitt að segja til um það með einhverri nákvæmni hverjar afleiðingar eru af breyttri löggjöf, þar að segja áhrif á afbrotatíðni. Eins og með flesta samfélagslega þætti þá er nánast ómögulegt að stjórna fyrir öðrum þáttum sem gætu verið að hafa áhrif. Þar sem að byssulöggjöfin er ólík milli fylkja hafa menn skoðað hvort að breytingar í einu fylki verði til þess að afbrotatíðnin þar fylgi öðru munstri en annarstaðar. En þar sem að löggjöfin smitast yfir í næstu fylki er þetta ekki fullkomin leið (þetta er ekki eiginlegt tilraunasnið eins og einhverjir hafa haldið fram). Ef erfitt er að nálgast byssur í einu fylki en auðvelt í því næsta er líklegt að fólk ferðist milli fylkja til að verða sér út um byssur. Það eru allir fræðingar sammála því að það þurfi að samræma löggjöfina milli fylkja. Með alla fyrirvara í huga, eru samt frekar sterkar vísbendingar um að hafa það ólöglegt að ganga um með byssur (concealed weapons), í borgum þar sem lögreglan gerir töluvert af því að stoppa fólk og leita af skotvopnum (stop and frisk) dragi úr glæpum þar sem notaðar eru byssur (t.d. vopnuðum ránum og skotárásum).

Ég bað nemendur mína um daginn að segja mér fyrsta orðið sem kæmi upp í hugann þegar ég nefndi „byssur“ og ég fékk vissulega orð sem ég átti von á, eins og crime, police, death. En ég fékk samt oftar orð eins og safe, sexy, cool, power, protection. Þessir nemendur eru flestir 18 til 19 ára, á fyrsta ári í háskóla (College). Það að upplifa að byssur veiti fólki vörn eða jafnvel völd er að mínu mati stór hluti af vandanum.

Það hefur orðið til orðræða hér í amerískum fjölmiðlum um að skotárásarmennirnir sem hafa á síðustu árum orðið bekkjafélögum sínum og kennurum að bana hafi verið félagslega fatlaðir einfarar sem hafi allt í einu snappað. Í raun hafa flestar þessara skotárása verið mjög skipulagðar. Skotárásarmennirnir hafa ekki verið einfarar heldur strákar sem þráðu að öðlast virðingu og vinskap skólafélaga sinna, þá sérstaklega vinsælu íþróttastrákanna sem allir dýrka. Þeir hafa reynt án árangurs að fá jákvæða athygli bekkjafélaga sinna. Fleiri en einn af þessum strákum sagði bekkjafélögum sínum frá því að hann myndi mæta með byssu í skólann einn daginn og skjóta, og við það fengu þeir athygli. Einn af þessum drengjum sagði frá því í viðtali eftir skotárásina að hann hefði viljað hætta við en ekki getað það af því að hann var búinn að vera tala svo mikið um þetta og hræddur um að strákunum finndist hann algjör loser. Í stuttu máli þá virðist sem það hafi verið einkennandi hjá þessum strákum að byssurnar og þessar skotárásir hafi átt að veita þeim einhver völd og virðingu sem þá skorti í sínu daglegu lífi. Harvard prófessorinn Katherine Newman gerði á þessu mjög ítarlega rannsókn sem hún skrifar um í bókinni sinni Rampage: The Social Roots of School Shootings. Hér má líka sjá áhugavert viðtal við hana.

Minn punktur er bara að menning hefur áhrif. Ég upplifi að Bandaríkjamenn séu of uppteknir af því að vera í stríði. Þeir eru ekki bara í stríði við einhverja óvini í miðausturlöndum heldur líka við óvini úti á götu, við vonda manninn. Það er ótrúlega oft sem fullorðið fólk talar um að það þurfi að gera hitt og þetta við „the bad guy“. Ég veit að flestir þessarra ungu skotárásarmanna hafa eflaust átt við einhver sálræn vandamál að stríða. En svo voru þeir líka að reyna að ganga í augun á hinum, vera stórir kallar, láta taka eftir sér. Við vissar aðstæður, í samfélagi þar sem hermenn eru aðalhetjurnar munu einhverjir taka uppá svona vitleysi til að reyna að ná athygli og öðlast virðingu og völd. Þeir eru auðvitað að misreikna sig með virðinguna, en vissulega hafa þeir allir fengi svakalega athygli. Það væri gott ef það að geta samið fallegt ljóð þætti sexy, cool og powerful.

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Já eða nei

Það er krúttlegt að heyra Egil þylja hvað eftir annað “you have a very hairy back, I like that in a woman”. Hann fann hluta úr Matacascar 3 á YouTube og er að herma eftir King Julian.

Ég upplifi mikinn vanmátt þegar ég hugsa um hvernig ég fæ Egil til að tala meira, til þess að tjá sig eðlilega. Ég skil ekki hvernig hann upplifir heiminn og af hverju honum finnst svona svakalega erfitt að læra sumt en mjög auðvelt að læra annað. Hann virðist t.d. vera með mjög gott tóneyra, hann lærir lög og texta úr lögum mjög hratt. Hann á auðvelt með að leika eftir öll hljóð sem hann heyrir, og getur t.d. hljómað nákvæmlega eins og Wall-E og Eva í teiknimyndinni góðu. En að nota talað mál til að eiga samskipti virðist vera mjög erfitt fyrir Egil. Hann gerir það samt ef hann algjörlega þarf það, en þá segir hann bara eitt orð en myndar ekki setningar. Einu orðin sem hann hefur sett saman eru „meira brauð“ og það gerði hann fyrst fyrir tveimur og hálfu ári. Hann kemur bara til mín og horfir á mig og segir „brauð“ eða „Lightning McQueen“ (ef hann finnur ekki bílinn sinn). Hann veit líka hvað flest dýr heita og getur nefnt þau þegar við erum að skoða bók, og telur uppá 20 og þekkir einhverja stafi og svoleiðis. En að fá Egil til að svara með því að segja annað hvort „já“ eða „nei“ þegar hann er spurður að einhverju er nánast ómögulegt. Á hverjum degi reyni ég þetta, að spyrja t.d. „viltu epli“ þegar ég veit að það er það sem hann langar í. En hann horfir bara á mig og segir aftur og aftur „já eða nei“, hann endurtekur alltaf spurninguna mína en svarar aldrei, og verður svo pirraður á mér og reynir að sækja sér sjálfur epli. Það er samt ekki þannig að Egill forðist samskipti. Hann er mikil félagsvera, vill helst alltaf hafa einhvern hjá sér og vill endilega láta leika við sig. Hann er einmitt nýbyrjaður á því að kalla stöðugt „mommyyyyy“ þegar hann áttar sig á því að ég er ekki lengur hjá honum í stofunni, sem er mjög sætt.

Ef til vill seinkar það talinu að Egill þarf að læra tvö tungumál. Núna segir hann bæði orð á íslensku og ensku. Þegar Egill greindist leituðum við ráða hjá sérfræðingum á þessu sviði sem sögðu að einhverf börn gætu líka lært að tala tvö tungumál, og hefðu gott af því eins og önnur börn. Samt hafa margir hér svo sem líka mælt með því að við tölum við Egil á ensku. Í einhverjum áhyggjuköstum yfir því að við séum að gera allt vitlaust höfum við spáð í því að tala bara við Egil á ensku, eða flytja aftur til Íslands. En við ætlum að gera hvorugt  (að minnsta kosti ekki á næstunni), við tölum við Egil á íslensku, ég les fyrir hann á ensku og tala við hann á ensku utan heimilisins (t.d. á leikvellinum þar sem allir eru að tala ensku) sem mér finnst samt alltaf pínu skrítið. Allt skólastarf, talþjálfun og sjónvarp sem Egill horfi á er auðvitað á ensku. Hann virðist skilja bæði tungumálin. 

 

Mér finnst þetta flókið. Ég er samt þakklát fyrir að Egill skuli þó tala þetta litla sem hann gerir og að þrátt fyrir að framfarirnar hafi verið hægar þá benda þær samt auðvitað til þess að hann muni tala meira. Sem hann verður að gera því hann er með svo svakalega fallega rödd.

 

Posted in Einhverfa | 2 Comments

Einhverfa er allskonar

… stundum er hún til dæmis svona

http://www.facebook.com/photo.php?v=10151095733418857

 

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Einhverfa og mataræði

Daginn eftir að Egill greindist fór Mörður á Amazon og pantaði allar bækur sem hann fann um einhverfu, tvö eintök af sumum bókunum (ég veit ekki ennþá alveg afhverju). Einhverjar af þessum bókum fjalla um tengsl einhverfu og mataræðis (t.d. Children with Starving Brains og Breaking the Vicious Cycle). Það er eitthvað mismunandi milli bóka hvernig tengslin eru skýrð, en í stuttu máli er bent á að stór hluti einhverfra barna sé með sérstaklega viðkvæman  meltingarveg sem geri það meðal annars að verkum að líkaminn getur ekki sótt þá næringu sem hann þarf (þetta er stutta útgáfan af skýringunni).

Tengsl mataræðis og einhverfu er töluvert deiluefni. Á meðan sumir ganga svo langt að halda því fram að það sé hægt að „lækna“ einhverfu með því að taka út ákveðnar fæðutegundir halda aðrir því fram að þetta sé rugl sem löngu sé búið að afsanna. Eftir að hafa lesið um mataræði og einhverfu í fjölmörgum bókum og greinum ræddum við þetta við sálfræðinginn sem hafði umsjón með meðferð Egils en doktorsverkefnið hennar snérist um meðferð fyrir einhverf börn. Hún hefur gefið út eina bók um efnið og sérhæft sig í því að búa til meðferðarprógrömm fyrir einhverfa. Hún sagði okkur að þetta væri algjört bull og að henni þætti ógeðslegt hvað margir væru að selja foreldrum falskar vonir með einhverju svona rugli, og allskonar rugli. Ég hef reyndar komist að því síðan að henni finnst allt sem er ekki eins og það sem hún sjálf notar frekar glatað.

Eina ráðið er auðvitað að fara sjálfur og skoða þær rannsóknir sem hafa verið gerðar, skoða hvaða aðferðum hefur verið beitt og hverjar niðurstöðurnar hafa verið. Ég fór yfir fjölmargar rannsóknir á tengslum einhverfu og mataræðis en því miður eru þær allar háðar einhverjum veikleikum. Til dæmis kom út rannsókn árið 2010 þar sem rannsakendur höfðu sent spurningalista á 248 foreldra einhverfra barna og þeir spurðir um val þeirra á óhefðbundnum meðferðum (breytt mataræði er þekkt sem ein af fjölmörgum „alternative treatments“). Um 30% (73) foreldra höfðu prófað að taka út ákveðnar fæðutegundir  og af þeim sögðust um 55% hafa séð miklar eða einhverjar framfarir hjá barninu sínu en um 36% sögðust ekki hafa séð neinar breytingar. 4% sögðu að barnið hefði versnað og restin svaraði ekki spurningunni. Þegar þessar rannsóknarniðurstöður eru skoðaðar ber að hafa í huga að yfir 80% foreldra höfðu væntingar um að breytt mataræðið myndi breyta hegðun barna þeirra sem getur haft áhrif á niðurstöður.

Tvær rannsóknir sem breski fræðimaðurinn Paul Whiteley hefur gert hafa sýnt fram á tölfræðilega marktækt bætta hegðun einhverfra barna (bætt hegðun á t.d. við um að börnin tali meira og almennt bættir samskiptahæfileikar) eftir að þau hættu að neyta glútens og mjólkurvara. Í fyrri rannsókninni vissu foreldrar og kennarar hvað var verið að rannsaka sem getur hafa haft áhrif á niðurstöður og þar var ekki notaður samanburðarhópur. Í seinni rannsókninni var 72 börnum skipt uppí tvo hópa þar sem annar hópurinn var settur á sérstakt mataræði (út með glúten og mjólkurvörur) en ekki hinn, en hvorki foreldar né þeir sem mældu árangur vissu hvaða börn voru í hverjum hópi (randomized double blind measures trial). Rannsakendur lögðu fyrir mörg próf og þrátt fyrir að flest þeirra sýndu fram á bætta hegðun rannsóknarhópsins (þau sem voru á sérstöku mataræði) var aðeins eitt próf tölfræðilega marktækt. Jafnfræmt hættu 11 börn í rannsóknarhópnum í rannsókninni vegna þess að foreldrar þeirra sáu engan mun á hegðun og fannst þetta of mikið vesen. Svipuð rannsókn kom út árið 2006 þar sem 15 börnum var skipt í tvo hópa og foreldar vissu ekki hvort barnið þeirra var í rannsóknarhópnum. Sú rannsókn sýndi líka að hópurinn sem var á sérstöku mataræði sýndi bætta hegðun en þar sem úrtakið var mjög lítið var sá munur ekki tölfræðilega marktækur.

Þessi samantekt hér að ofan er orðin aðeins fræðilegri en hún átti að vera en ég er samt að einfalda efnið alveg helling. Ég er til dæmis hér aðeins að fjalla um þær rannsóknir sem hafa skoðað tengsl á milli þess að taka út glúten og mjólkurvörur og hegðun barnanna. Rannsóknir hafa vissulega verið margskonar,  í sumum var t.d. gert ofnæmispróf á einhverfum börnum, þvag þeirra mælt og annað slíkt. Niðurstöður þessara rannsókna hafa líka verið frekar “inconclusive” (man ekki alveg rétta íslenska orðið, mismunandi rannsóknir hafa sýnt fram á aðeins mismunandi niðurstöður).

Í stuttu máli leiðir mín samantekt í ljós að tengsl mataræðis við einhverfu hafa ekki verið „afsönnuð“ né „sönnuð“. Við höfum haft áhyggjur af meltingu Egils í frekar langan tíma en okkur verið sagt af lækni að ef að hann sé hraustur ættum við ekki að spá meira í það. Við höfum tekið ákvörðun um að gera breytingar á mataræði Egils. Við ætlum samt að hitta lækninn hans fyrst og fara yfir þessi mál með henni. Egill er nú þegar mjög matvandur og ef að þetta verður til þess að hann fari að borða minna en hann gerir núna gæti það auðvitað verið slæmt.

Egill byrjaði nýlega í skóla sem við höfum mikla trú á en í skólanum er matur í boði Board of Special Education í New York borg. Eftir að hafa farið yfir matseðilinn höfum við komust að því að börnunum er aðallega boðið uppá hveiti og sykur. Á síðasta fimmtudag fengu börnin pönnukökur í hádegismat og kex í kaffinu. Annars er yfirleitt pizza eða hamborgarar í hádegismat og einhverskonar sætabrauð í kaffinu. Hvernig sem við tökum á þessu með mataræðið hans Egils þá mun hann að minnsta kosti kom með nesti í skólann frá og með mánudeginum.

Posted in Einhverfa | Leave a comment

Autism By Hand

Ég hef tekið þá ákvörðun að hætta að segja ókunnugu fólki sem ég og Egill hittum úti að Egill sé einhverfur, það er bara of asnalegt. Stundum þegar mér þykir Egill haga sér undarlega úti á leikvelli skerst ég í leikinn og brosi kjánalega til foreldra hinna barnanna og segi, hann er einhverfur. Þetta er auðvitað útí hött í ljósi þess að börn sem eru ekki einhverf haga sér líka oft undarlega úti á leikvelli, eins og með því að taka leikföng annarra barna án þess að biðja um leyfi. Ég geng svo langt að segja fólki sem brosir og heilsar Agli í lestinni að hann sé einhverfur, svona bara til að allir geri sér örugglega grein fyrir því að ég eigi ekki ókurteisan son (þ.e.a.s. þegar hann heilsar ekki á móti).

Algengustu viðbrögð fólks við þessum upplýsingum er að segja annað hvort; að hann líti samt alveg út fyrir að eðlilegur. Ég segi þá fólki iðulega að í raun sé ekki til neitt einhverfu „look“ og hugsa að þeirra eigin börn séu heppin að það sjáist ekki utan á þeim að foreldrar þeirra séu heimskir (mjög barnalegt, ég veit). Eða að fólk segi að við séum öll einhversstaðar á einhverfurófinu (hér segir fólk, well we are all on the spectrum!). Ég hef heyrt þetta nokkuð oft, þetta virðist vera eitthvað sem er fínt að segja núna. Ég hugsa alltaf, já en 99% okkar erum á „ekki einhverf“ endanum á rófinu. En fólk er vitanlega bara að reyna að bregðast á kurteisan hátt við upplýsingum sem það bað ekki um. Og það er oft hægt að sjá vísbendingar á t.d. handahreyfingum og hvernig krakkar skoða hluti að þau séu einhverf. Fólk á líklega bara við eitthvað þvíumlíkt.

Annars fór ég að hugsa um þetta eftir að hafa lesið bók um einhverfa stelpu. Bækurnar sem ég hef lesið um einhverfu hafa verið misgóðar, sumar reyndar mjög leiðinlegar. Já ég sagði það, það eru til bækur um einhverfu sem mér finnst drepleiðinlegar. Mig langar að mæla með þessari sem ég var að klára, hún heitir Autism By Hand og er skrifuð af móður í Alabama. Lorca Damon (rithöfundurinn) á ca 10 ára einhverfa stelpu og bókin er einfaldlega um hennar reynslu um að ala hana upp.  Lorca Damon bloggar líka hér .

Það er ótrúlega hressandi að lesa reynslusögu konu sem skrifar um hlutina eins og þeir eru án þess að spá í því að vera stöðugt pc (eða við hæfi). Lorca gerir m.a. grín af því að í sumum bókum um einhverfu er talað um venjulega krakka sem „neuro-typical“ í stað þess að nota orðið „normal“ og þá „not normal“ eða „different“ til að lýsa einhverfum börnum. Í hennar orðum;  „it is a statistical fact that most of the kids in the world are not like your autistic child, so by the freaking definition of the word, your child is not normal“. Í bókinni lýsir hún leiðum sem hún notaði til að gera hluti eins og að venja dóttir sína af  bleyju yfir í að fá hana til að tala við sig. Þessi kona er jákvæð og fyndin og því verður bókin skemmtileg í lestri.

Trúarskoðanir Lorcu eru samt ólíkar mínum og átti ég frekar erfitt með að lesa kaflann um Guð/trú, en þar segir hún meðal annars að kannski hafi Guð gert dóttir sína einhverfa til þess að hjálpa öðru einhverfu barni. Þessi kafli er stuttur og það má vel sleppa honum, eða lesa hann og æfa sig um leið í umburðarlyndi (sem ég líklegar þarf meiri æfingu í en margir(sumir) aðrir). Í heildina er bókin ekki bara skemmtileg heldur líka gagnleg. Og svo kostar kindle útgáfan af henni ekki nema 99 cent núna á Amazon.

Posted in Einhverfa | 6 Comments

Nýr skóli

Núna er ég nýbúin að vera á foreldrafundi í skóla sem Egill byrjar í í september. Það er rosa gott að hitta aðra foreldra einhverfra barna. Ég hef í raun fengið bestu upplýsingar um allt í gegnum aðra foreldra, betri upplýsingar heldur en í gegnum sérfræðingana sem vinna við þetta eða í gegnum upplýsingar á netinu.

Þessi skóli er sagður einn sá besti á Manhattan þrátt fyrir að hann sé ekki einkaskóli sem kosti þúsundir dollara á mánuði (eins og sumir skólar hér). Ég er rosa glöð að við komum honum inní þennan skóla því það er frekar erfitt. Egill fer í bekk með 7 öðrum krökkum og þar verður einn aðalkennari og tveir aðstoðarkennarar. Allir aðalkennarar eru með meistaragráðu í einhverju sem tengist kennslu fatlaðra ungra barna. Auk þess starfa í skólanum sérstakir talþjálfar, iðjuþjálfar, líkamsþjálfar, sálfræðingar, félagsráðgjar og hjúkrunarfræðingur, allt fólk sem hefur sérhæft sig í einhverfu.

Það eina sem ég óttast við að færa Egil úr þeim skóla sem hann er núna í og í þennan skóla er að núna verður hann í skóla með öðrum börnum sem eru eins og hann. Egill hefur gott af því að vera í kringum börn sem eru ekki einhverf, börn sem tala við hann og reyna að fá hann með sér í „venjulega“ leiki. Ég held að hann læri mikið af „venjulegum“ jafnöldrum sínum. Krakkarnir sem hann er með á leikskóla núna koma stundum fram við Egil eins og hann sé litla barnið á deildinni, sem er bara gott. Þau eru góð við hann, leiða hann og passa uppá hann. Við höfum ákveðið að fara með Egil á tónlistarnámkeið hér í hverfinu eftir skóla, þannig að hann hafi tækifæri til að hitta reglulega önnur allskonar börn. Það eru tónlistarnámskeið hér á hverju horni nánast, við búum í sama hverfi og Juliard skólinn, Metropolitian óperan, og Lincoln Center (þetta er mikið tónlistar hverfi).

Egill hefur verið að fá sérstaka aðstoð frá New York borg síðan í byrjun nóvember á síðasta ári. Hann fær 20 tíma af atferlismeðferð á viku (ABA), 2 ½ tíma af talþjálfun, 1 tíma af iðjuþjálfun og hálftíma af líkamsþjálfun. Þessi meðferð fer að mestu fram á einkaleikskólanum sem hann er á núna en einnig að hluta til heima. Við þurfum ekkert að borga fyrir þessa aðstoð og þetta er ekki tengd tryggingunni okkar, en bið borgum auðvitað fyrir leikskólann. Þetta þykir frekar mikil aðstoð, en rannsóknir hafa sýnt að bestur árangur næst af mikilli meðferð eins og ABA sem byrjar snemma.

En margir virðast einmitt halda að af því að við erum í Bandaríkjunum þá þurfi maður að vera mjög ríkur til að fá aðstoð fyrir fötluð börn (og ég hélt það reyndar líka sjálf). Ef maður er ríkur í Bandaríkjunum þá er hægt að kaupa sér mikla aukaþjónustu (sumir vilja t.d. að börnin þeirra séu í ABA í 8 klst. á dag sem ég reyndar hef mínar efasemdir um), sem ég veit ekki hvort væri hægt að kaupa t.d. á Íslandi. En til þess að fá mikla þjónustu hér þarf maður reyndar að hafa svolítið fyrir því, borgaryfirvöld hér eru ekki tilbúin að borga fyrir aðstoð sem þau komast upp með að sleppa við að borga. En mér skilst að á Íslandi þurfi maður líka að hafa fyrir því að fá góða þjónustu.

Þegar Egill var greindur fyrst veltum við því fyrir okkur hvort við þyrftum að fara heim til Íslands. Við fengum hins vegar þær upplýsingar að það væri mikil bið eftir þjónustu á Íslandi og hún væri ekkert sérstök í Reykjavík, en fín á Seltjarnarnesi. Annars hef ég fengið aðeins mismunandi upplýsingar hvað það allt varðar.

Það hafa orðið framfarir hjá Agli, ég veit ekki hvort hægt sé að segja að þetta séu miklar framfarir miðað við svona hvað er eðlilegt að þau séu að þroskast á þessum aldri. Hann notar töluvert af orðuðm, bæði ensku og íslensku. En frekar en að nota tungumál til að eiga samskipti nefnir (labeling) hann hluti og hermir. Til dæmis þegar hann sér mynd fíl segir hann elephant, og svo ef ég spyr hann spurningu þá endurtekur hann frekar spurninguna heldur en að svara (sem er algengt hjá einhverfum). Allir sem hafa unnið með Agli, allir therapistarnir, telja að hann eigi eftir að tala nokkuð eðlilega, þeir telja að hann læri hratt og hafi tekið miklum framförum. En það kemur bara í ljós. Egill er alla daga glaður, ljúfur og hraustur, og það er mikilvægast held ég.

Posted in Uncategorized | 1 Comment