Tekjublað Frjálsrar Verslunar

Fyrir nokkrum árum vann ég rannsókn fyrir Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu þar sem fókusinn var á þýfi og þýfismarkað. Ég tók viðtöl við allskonar innbrotsþjófa. Ég byrjaði á því að taka viðtal við mann í fangelsi sem hafði lítinn áhuga á því að tala við mig. Erlendar rannsóknir hafa einmitt fjallað um vandamál sem tengjast því að taka viðtöl við fanga, til dæmis að þeir treysti því ekki þegar rannsakandinn lofar nafnleynd. Með ýmsum leiðum fann ég því 8 aðra einstaklinga sem voru annað hvort virkir eða fyrrum innbrotsþjóðfar, flestir viðmælendur mínir höfðu hlotið dóm fyrir augðunarbrot. Þetta var áhugaverð rannsókn þar sem viðmælendur lýstu ferlinu frá því að velja sér stað yfir í að losa sig við þýfið.

Flestir viðmælendur mínir höfðu mun meiri reynslu af því að brjótast inní fyrirtæki heldur en heimahús, og völdu yfirleitt fyrirtæki framyfir heimahúsið þar sem þeim fannst erfiðara að réttlæta að stela frá fólki heldur en „einhverju tryggðu fyrirtæki“. Mér var sagt að til þess að brjótast inná heimili fólks þyrfti viðkomandi að vera frekar „langt leiddur“ eða í „mikilli neyð“, þá yfirleitt fíkn. Ég heyrði af nokkrum töluvert skipulögðum innbrotum í fyrirtæki en aldrei í heimahús. Flestar lýsingar af innbrotum í heimahús voru þannig að viðkomandi var í öðrum erindagjörðum þegar hann koma auga á tækifæri, til dæmis opin glugga. Mér var líka sagt frá því þegar fólk braust inná heimili sem það þekkti eitthvað til, hafði til dæmis verið þar áður í partýi og komið auga á hluti sem þjófurinn vissi að auðvelt yrði að koma í verð. Hversu auðvelt eða erfitt yrði að losna við þýfið var oft  gefið sem megin áhrifavaldur í því hvort hlut var stolið.

Fjölmargar erlendar rannsóknir sýna einmitt að það eru aðallega tveir megin þættir sem hafi áhrif á hvernig innbrotsþjófar velja hús til að brjótast inní. Annars vegar þekking eða kunnugleiki, og hins vegar tækifæri eða hentugleiki.

  • Þekking eða kunnugleiki

Öfugt við það sem flestir halda þá er algengara að fólk brjótist inní hús í sínu eigin hverfi. Það er óalgengt að menn (konur eru líka menn) ferðist inní „ríka hverfið“ til að brjótast inní einhvert hús sem það veit ekkert um, veit t.d. ekki hvort er með þjófarvarnarkerfi, hvernær fólk er heima, hvaða hlutir eru líklegir til að vera inní húsinu, hvort lásar séu í góðu ásigkomulagi og þvíumlíkt. Þetta eru hlutir sem menn öðlast upplýsingar um þegar þeir eru ekki endilega að leita af „réttu“ húsi til að brjótast inní, frekar þegar þeir eru á leiðinni í vinnuna, eða úti að labba með hundinn. Þess vegna er sambandið á milli fjölda innbrota og fasteignaverðs ekki sterkt. En í hverfum þar sem húsin eru flest stór og líta úr fyrir að þar búi ríkt fólk er stærsta og flottasta húsið yfirleitt ekki valið, það er talið líklegra til að vera vel varið (t.d. með góðri þjófarvörn). Hús sem eru nálægt verslunarsvæðum eru líklegri til verða fórnarlamb innbrotsþjófa þar sem fleiri eiga leið framhjá þeim húsum, fleiri vitni af því ef fólk gleymir að loka glugga.

  • Tækifæri eða hentugleiki

Í stuttu máli snýst þetta um hversu auðvelt er að brjótast inní húsið óséður. Þessi þáttur er auðvitað tengdur þessum hér fyrir ofan. Til dæmis eru flest hús sem brotist er inní mannlaus, en innbrotsþjófarnir verða að vita að það er enginn heima. Það er þekkt að prófað er að hringja á dyrabjöllu til að athuga aðstæður. Einnig mjög mikilvæg spurning, er einhversstaðar ólæst hurð, gluggi, eða er Securitas miði í gluggunum? Oft er securitas miðinn nóg til að fæla þjófa frá. Í mínum viðtölum sögðu menn frá því að það væri hægt að brjótast inní hús þrátt fyrir að það væri vaktað af Securitas  en að það væri meira vesen og meira vesen þýðir alltaf minni líkur á innbroti. Eru nágrannar sýnilegir? Því fleiri nágrannar sem þekkjast því minni líkur á innbroti. Er bakgarður? Koma tré í veg fyrir að nágrannar taki eftir viðkomandi? Geltir hundur þegar einhver gengur að húsinu? Hvernig er lýsingin fyrir framan húsið? Hversu auðvelt er að komast í burtu?

Fólk getur svo sem gert ýmislegt til að minnka líkur á innbroti. Best er að gera ráðstafanir áður en hús eru keypt. Þá er gott að spyrja sig hvernig aðgengið er til og frá húsinu. Miðlungs hús, í bottlanga, nálægt mannmörgum götum sem hægt er að komast inní á fleiri en einum stað, stöðum sem eru skýldir (þar sem hægt er að athafna sig án þess að gangandi vegfarendur verða þess varir) eru líklegust til að vera valin af innbrotsþjófum. Svo þarf fólk auðitað að tryggja að öllu sé vel læst. Ef viðkomandi er mikið af heiman er ráð að kynnast sem flestu heimavinnandi fólki í götunni, þannig að það verði vart við ókunnuga á lóðinni þinni og sé jafnvel tilbúið að spyrja hvaða erindi fólk eigi. Og að lokum, ekki vera dónalegur við fólk sem vinnur í hvefinu þínu, stundum eru hús valin í hefndarskyni. Kannski best að taka enga sénsa og vera bara alltaf kurteis.

Það er hins vegar ekki í takt við neitt sem ég hef nokkurn tímann lesið eða skoðað að innbrotsþjófar leiti sér að fórnarlambi með því að afla sér upplýsingar um tekjur einstaka húseiganda. Þegar maður hugsar um ofangreinda þætti, af hverju ætti það þá að skipta máli?

Ef einhver þekkir innbrotsþjóf sem hefur fundið sér fórnarlamb með því að lesa Tekjublað Frjálsrar Verslunar væri ég rosalega mikið til í að heyra af því. Eða enn betra, ef einhver er innbrotsþjófur sem hefur notað Tekjublaðið sér til gagnaöflunar þá væri áhugavert að heyra það. Það má til dæmis senda mér tölvupóst.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

2 Responses to Tekjublað Frjálsrar Verslunar

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *