Egill litli

Ég á skemmtilegan, blíðan, og fallegan einhverfan son. Ég veit ekki hvernig Egill væri ef hann væri ekki einhverfur, ég hugsa eiginlega aldrei um það. Ég verð stundum pínu undrandi þegar ég er í kringum 2ja til 3ja ára börn sem eru ekki einhverf, þau eru pínu öðruvísi. Ég veit ekki um betri leið til að lýsa því.

Egill var greindur með einhverfu í september. Við vorum kölluð á fund 2 vikum eftir að hann byrjaði á leikskóla hér í New York í byrjun september. Á fundinum var bent á að Egill svaraði ekki þegar til hans væri kallað, að hann reyndi lítið að tjá sig við leikskólakennarana, og léki sér ekki við hin börnin. Við samþykktum að senda hann í greiningu. Við héldum þó bæði að vandinn væri tungumálið. Egill skildi auðvitað ekki orð í ensku og allir á leikskólanum báru nafnið hans vitlaust fram. Við vissum að Egill væri seinn í málþroska, en héldum að það væri í raun allt og sumt.

Nokkrum dögum eftir að við samþykktum að senda Egil í greiningu kom fyrsti sérsfræðingurinn heim að meta Egil. Egill var metin af fjórum mismunandi sérfræðingum. Dr. Robeck, sálfræðingur sem var megingreiningaraðlinn, hafði verið með Agli um klukkutíma og spurt okkur nokkurra spurninga þegar hún sagði; já hann er einhverfur. Þrátt fyrir að ég efaðist töluvert um greininguna hennar grét ég mikið næstu daga.

Ég held að hugmyndir mínar um einhverfu hafi verið svipaðar og margra annarra. Ég sá fyrir mér einstakling sem lifir í sinni eigin veröld. Einstakling sem getur ekki tengst öðrum manneskjum, sem getur aldrei sýnt væntumþykju eða fundið væntumþykju sem aðrir sýna. Það var auðvitað vegna þessarra hugmynda sem mér fannst það gjörsamlega hræðilegt og óhugsandi að Egill væri einhverfur.

Egill er yndislegur. Hann er hlýr, og blíður í skapi. Hann á alls ekkert erfitt með augnsamband. Hann sækir mikið í snertingu, honum finnst gott að láta faðma sig. Hann sýnir væntumþykju með því að taka utan um hálsinn á mér og kreista og segja, ahh. Ég fæ alltaf koss þegar ég bið um hann. Hann brosir yfirleitt, og hlær mjög mikið, honum finnst ég t.d. yfirleitt frekar fyndin. Honum finnst samt Tom the Cat fydnastur. Hann læðist fram þegar hann á að vera farinn að sofa og setur upp sjúklega sætt bros. Þegar við birtumst á leikskólann að sækja Egil verður hann rosa glaður og hleypur til okkur, oft sækir hann líka úlpuna sína og réttir okkur.

Egill talar óvenju lítið miðað við aldur. Hann reynir að komast hjá því að tala. Hann reynir mjög mikið að verða sér útum það sem hann vantar sjálfur, án þess að þurfa að biðja um hjálp. Þegar honum tekst t.d. ekki að ná sér í safa sjálfur þá dregur hann mig að ísskápnum og í stað þess að benda á safann þá bíður hann eftir því að ég átti mig á því hvað hann vantar. Og ef ég átta mig ekki á því, segir hann að lokum; drekka. Þegar pabbi hans biður hann um að segja pabbi, horfir hann á pabba sinn og segir; mamma. J Egill hefur sjúklega krúttlegar handahreyfingar. En þessar handahreyfingar eru einmitt einkennandi fyrir einhverf börn.

Eins og aðrir krakkar þá hefur Egill gaman að því að horfa á sjónvarpið, í uppáhaldi er myndin CARS. Hann elskar bíla, en leikur sér ekki með þá eins og þykir eðlilegt. Hann snýr dekkinu á bílunum sínum og fylgist með því snúast. Uppáhaldsleikfangið hans núna er samt I-pad, sem hann kann orðið betur á en ég. Hann er góður að leysa allskonar þrautir en gerir það ekki endilega þegar hann er beðinn um það.

Þegar ég segi fólki að sonur minn sé einhverfur fæ ég stundum að heyra að líklega hafi Beethoven, Mozart og Einstein verið á einhverfurófinu. Og svo auðvitað gaurinn sem myndin Rain Man fjallaði um. Sjálfri þykir mér ekkert endilega líklegt að Beethoven og félagar hafi verið með einhverfu. Það er ekki minn draumur að Egill skari fram úr á einhverju sviði. En ég vona svo innilega að hann eigi eftir að eignast vin.

 

This entry was posted in Einhverfa. Bookmark the permalink.

12 Responses to Egill litli

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *