Nokkur orð um dularfulla Píratamálið

Það hefur auðvitað verið sérstaklega áberandi á síðustu árum að í íslensku stjórnkerfi hefur skort gegnsæi og að íslenskir stjórnmálamenn þurfa ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Hér er ég ekkert sérstaklega að vísa í síðustu fjögur ár. Ég held að beint lýðræði geti dregið úr spillingu í stjórnmálu. Ég hef jafnframt áhyggjur af því að fólk sé tilbúið að fórna upplýsingafrelsi vegna hræðsluáróðus fólks í hagsmunapólitík. Þess vegna kaus ég Pírata. Ég kaus utankjörstaðar og búin að senda atkvæðið mitt til Íslands. Ég hef einnig haft trú á Birgittu Jónsdóttur, að hún sé að minnsta kosti heiðarleg.

Í dag hafa fjölmiðlar vakið athygli á tveimur málum sem hefur orðið til þess að ég hef áhyggjur af því að hafa gert mistök með því að kjósa Pírata. Annars vegar er það fréttin af „frambjóðandanum sem hatar konur“. Ingi Karl er í 9. sæti Pírata í Norðausturkjördæmi. Nýleg skrif Inga Karls á internetið gefa ekki einungis til kynna að hann sé fullur af kvennfyrirlitningu, heldur líka að hann sé illa gefinn. Píratar virðast sammála um að þessi ummæli Inga séu vægast sagt ósmekkleg og óafsakanleg.

Hins vegar hefur einhver fundið grein sem Jón Þór skrifaði á mbl árið 2006. Jón Þór er í 1. Sæti Pírata í Reykjavík Suður. Að mínu mati er grein Jón Þórs meira áfall fyrir Pírata heldur en ruglið í Inga Karli. Það er mjög ólíklegt að Ingi Karl muni koma til með að hafa nokkur áhrif, sérstaklega eftir daginn í dag. Jón Þór gæti hins vegar, ef Píratar fá góða kosningu, haft áhrif.

Greinin sem Jón Þór skrifaði einkennist af karlrembu og fáfræði um jafnréttismál. Greinin er 7 ára gömul og því má vel vera að Jón Þór hafi þroskast og kannski myndi hann aldrei hafa skrifað samskonar grein í dag. En málið er að við vitum það ekki. Ólíkt því sem á við um skrif Inga Karls þá hafa einhverjir Píratar varið grein Jón Þórs, og ekkert heyrst frá honum sjálfum um málið svo ég viti til.

Hér er grein Jón Þórs, og mínar athugasemdir og spurningar inn á milli (grein Jón Þórs er feit- og skáletruð).

Hvað vilja konur og karlar?

AFLIÐ sem býr í kvenréttindahreyfingunni hefur tryggt konum mörg þau réttindi sem þær eiga réttilega að hafa og enn má betur gera, en nú er þetta sama afl farið að kúga margar konur og leiða aðrar á villigötur.

Byltingin étur börnin sín

Margar ungar mæður sem vilja vera heimavinnandi og ala upp börnin sín, þora varla að segja frá því að þær séu ekki líka í námi eða vinnu. Þær fá oft spurninguna hvort þær séu “bara” að hugsa um barnið. Ímyndin er að sjálfstæðar konur fara út á vinnumarkaðinn. Það þykir ekki flott í dag að vera heimavinnandi móðir. Þetta er sorglegt virðingarleysi við hlutverk sem leggur grunninn að heilbrigðum einstaklingum og samfélagi, móðurhlutverkið.

Er þetta ólíkt þeim viðhorfum sem fólk hefur gagnvart körlum sem eru heima að hugsa um börnin sín? Heldur Jón Þór að karlar sem eru „bara“ heima fái ekki svipaðar spurningar? Mér þykir líklegt að karlmenn sem vilja vera heimavinnandi og ala upp börnin sín, og vera ekki í námi eða vinnu á meðan, séu mun frekar litnir hornauga heldur en konur sem gera slíkt hið sama. Vandamálið er því ekki viðhorf til heimavinnandi kvenna, heldur að uppeldi barna er ekki metið jafn mikilvægt og starfsframi. Þar að segja ef þetta er raunverulegt viðhorf í samfélaginu, sem ég get svo sem ekkert frekar en Jón Þór fullyrt um án þess að hafa gert á því einhverskonar rannsókn.

Þetta er sorglegt virðingarleysi við hlutverk sem leggur grunninn að heilbrigðum einstaklingum og samfélagi, móðurhlutverkið. Gæti verið að aukin ofbeldishneigð ungs fólks megi að einhverju leyti rekja til vanræktra lyklabarna sem alin voru upp af sjónvarpi og tölvuleikjum?

Telur Jón Þór móðurhlutverkið vera mikilvægra en föðurhlutverkið? Rannsóknir hafa einmitt sýnt að uppeldisaðferðir hafa mikil áhrif á velferð og hegðun barna. En engin rannsókn (sem ég veit af) hefur sýnt að það skipti meira máli að foreldrið sem sinni uppeldinu í meira mæli sé kona.

Konur eiga rétt á því að velja sér störf sem þær vilja vinna og fá fyrir vinnuna sömu laun og karlmenn. Eiga þær að leggja jafnt af mörkum og karlmenn, en fá minna fyrir? Konur með sjálfsvirðingu sætta sig auðvitað ekki við slíkt.

Það eru ekki mörgum karlmönnum sem finnast rykfríar hillur og skínandi gólf það mikilvæg að þeir vilji eyða tíma sínum í slík þrif. Eiga þeir að leggja jafnmikið af mörkum og konur við að vinna verk sem þeir fá minna út úr? Karlmenn með sjálfsvirðingu sætta sig ekki við slíkt.

Af hverju heldur Jón Þór að konur telji hreint heimili það mikilvægt að þær vilji eyða sínum tíma í slíkt? Það er yfirleitt alltaf mjög slæm hugmynd að alhæfa út frá eigin reynslu.

Til að fá fólk til að gera það sem það vill ekki gera þarf að þvinga það undir vald sitt; gera það að undirlægjum.

Er Jón Þór að segja að konur sem reyna að fá eiginmenn sína til þess að taka þátt í heimilisstörfum séu að gera þá að undirlægjum?

Vilja konur virkilega mjúka menn?

Rannsóknir sýna að á egglostímabilinu falla konur fyrir sterkum, óhefluðum karlmönnum og sjálfsöryggi er yfirleitt efst, og alltaf ofarlega, á listanum yfir það sem konur falla fyrir í fari karlmanna. Eflaust er samt til sú kona sem vill búa með manni sem er undirlægja. En þótt það sé þægilegt að eiga hlýðinn mann, spurðu sjálfa þig hve lengi þú munir haldast hrifin af undirlægju.

Kveikir undirlægja í þér?

Í alvöru? Hvaða rannsókn? Það þarf enga rannsókn til að átta sig á því að konur vilji frekar stunda kynlíf þegar þær hafa egglos. Líklega vilja konur frekar stunda kynlíf með körlum sem þeim þykir líkamlega aðlaðandi. Hvað konum þykir líkamlega aðlaðandi er breytilegt, fer eftir stað og stund. Þar að segja, konum þótti öðruvísi týpur aðlaðandi fyrir t.d. 100 árum heldur en í dag.

Sjálfstætt fólk fer á eftir því sem það vill

Karlmenn vilja finna frið í faðmi elskunnar sinnar; finna að þar eigi þeir heima. En heimilið er ekki lengur griðastaður. Það er orðið vígvöllur þar sem barist er um heimilisstörf og þess háttar. Sjálfstæðir karlmenn sem sætta sig ekki við að sóa lífinu í rifrildi og vilja vernda tilvonandi börn sín fyrir því að alast upp við stríðsástand, leita þar til þeir finna konu sem finnst mikilvægara að veita fjölskyldu sinni griðastað en að rífast um heimilisverk; konu með fjölskyldufaðm, þar sem frið er að finna. Það er auðvelt að gleyma því sem við viljum í raun og fórna meiru fyrir minna.

Hér virðist Jón Þór vera að mæla með því að til þess að koma í veg fyrir ágreining hjóna þá þurfi að fara tilbaka um ca 50 ár í jafnréttismálum. Ef að heimilið breytist í vígvöll þegar kona fer fram á jafna ábyrgð á uppleldi barna og heimilisstörfum er það ábending um að karlinn þurfi að endurskoða viðhorf sín til hlutverki kynjanna. Kannski voru konur ekki eins hamingjusamar í daga Mad Men þáttanna og Jón Þór virðist halda.

Höfundur er nemi og virkur baráttumaður fyrir réttindum kvenna og gegn kynbundnu ofbeldi.

Og það er auðvitað spaugilegt að greinin endi á þessum orðum.

Það að Jón Þór hafi verið karlremba fyrir 7 árum þarf ekki að þýða að hann sé það í dag. En það er rosa mikilvægt fyrir þá sem eru enn að hugsa um að kjósa Pírata að vita hvort Jón Þór sé karlremba ennþá, því það getur haft raunverulegar afleiðingar fyrir fólk á Íslandi.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.

10 Responses to Nokkur orð um dularfulla Píratamálið

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *