Já eða nei

Það er krúttlegt að heyra Egil þylja hvað eftir annað “you have a very hairy back, I like that in a woman”. Hann fann hluta úr Matacascar 3 á YouTube og er að herma eftir King Julian.

Ég upplifi mikinn vanmátt þegar ég hugsa um hvernig ég fæ Egil til að tala meira, til þess að tjá sig eðlilega. Ég skil ekki hvernig hann upplifir heiminn og af hverju honum finnst svona svakalega erfitt að læra sumt en mjög auðvelt að læra annað. Hann virðist t.d. vera með mjög gott tóneyra, hann lærir lög og texta úr lögum mjög hratt. Hann á auðvelt með að leika eftir öll hljóð sem hann heyrir, og getur t.d. hljómað nákvæmlega eins og Wall-E og Eva í teiknimyndinni góðu. En að nota talað mál til að eiga samskipti virðist vera mjög erfitt fyrir Egil. Hann gerir það samt ef hann algjörlega þarf það, en þá segir hann bara eitt orð en myndar ekki setningar. Einu orðin sem hann hefur sett saman eru „meira brauð“ og það gerði hann fyrst fyrir tveimur og hálfu ári. Hann kemur bara til mín og horfir á mig og segir „brauð“ eða „Lightning McQueen“ (ef hann finnur ekki bílinn sinn). Hann veit líka hvað flest dýr heita og getur nefnt þau þegar við erum að skoða bók, og telur uppá 20 og þekkir einhverja stafi og svoleiðis. En að fá Egil til að svara með því að segja annað hvort „já“ eða „nei“ þegar hann er spurður að einhverju er nánast ómögulegt. Á hverjum degi reyni ég þetta, að spyrja t.d. „viltu epli“ þegar ég veit að það er það sem hann langar í. En hann horfir bara á mig og segir aftur og aftur „já eða nei“, hann endurtekur alltaf spurninguna mína en svarar aldrei, og verður svo pirraður á mér og reynir að sækja sér sjálfur epli. Það er samt ekki þannig að Egill forðist samskipti. Hann er mikil félagsvera, vill helst alltaf hafa einhvern hjá sér og vill endilega láta leika við sig. Hann er einmitt nýbyrjaður á því að kalla stöðugt „mommyyyyy“ þegar hann áttar sig á því að ég er ekki lengur hjá honum í stofunni, sem er mjög sætt.

Ef til vill seinkar það talinu að Egill þarf að læra tvö tungumál. Núna segir hann bæði orð á íslensku og ensku. Þegar Egill greindist leituðum við ráða hjá sérfræðingum á þessu sviði sem sögðu að einhverf börn gætu líka lært að tala tvö tungumál, og hefðu gott af því eins og önnur börn. Samt hafa margir hér svo sem líka mælt með því að við tölum við Egil á ensku. Í einhverjum áhyggjuköstum yfir því að við séum að gera allt vitlaust höfum við spáð í því að tala bara við Egil á ensku, eða flytja aftur til Íslands. En við ætlum að gera hvorugt  (að minnsta kosti ekki á næstunni), við tölum við Egil á íslensku, ég les fyrir hann á ensku og tala við hann á ensku utan heimilisins (t.d. á leikvellinum þar sem allir eru að tala ensku) sem mér finnst samt alltaf pínu skrítið. Allt skólastarf, talþjálfun og sjónvarp sem Egill horfi á er auðvitað á ensku. Hann virðist skilja bæði tungumálin. 

 

Mér finnst þetta flókið. Ég er samt þakklát fyrir að Egill skuli þó tala þetta litla sem hann gerir og að þrátt fyrir að framfarirnar hafi verið hægar þá benda þær samt auðvitað til þess að hann muni tala meira. Sem hann verður að gera því hann er með svo svakalega fallega rödd.

 

This entry was posted in Einhverfa. Bookmark the permalink.

2 Responses to Já eða nei

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *