Einhverfa og mataræði

Daginn eftir að Egill greindist fór Mörður á Amazon og pantaði allar bækur sem hann fann um einhverfu, tvö eintök af sumum bókunum (ég veit ekki ennþá alveg afhverju). Einhverjar af þessum bókum fjalla um tengsl einhverfu og mataræðis (t.d. Children with Starving Brains og Breaking the Vicious Cycle). Það er eitthvað mismunandi milli bóka hvernig tengslin eru skýrð, en í stuttu máli er bent á að stór hluti einhverfra barna sé með sérstaklega viðkvæman  meltingarveg sem geri það meðal annars að verkum að líkaminn getur ekki sótt þá næringu sem hann þarf (þetta er stutta útgáfan af skýringunni).

Tengsl mataræðis og einhverfu er töluvert deiluefni. Á meðan sumir ganga svo langt að halda því fram að það sé hægt að „lækna“ einhverfu með því að taka út ákveðnar fæðutegundir halda aðrir því fram að þetta sé rugl sem löngu sé búið að afsanna. Eftir að hafa lesið um mataræði og einhverfu í fjölmörgum bókum og greinum ræddum við þetta við sálfræðinginn sem hafði umsjón með meðferð Egils en doktorsverkefnið hennar snérist um meðferð fyrir einhverf börn. Hún hefur gefið út eina bók um efnið og sérhæft sig í því að búa til meðferðarprógrömm fyrir einhverfa. Hún sagði okkur að þetta væri algjört bull og að henni þætti ógeðslegt hvað margir væru að selja foreldrum falskar vonir með einhverju svona rugli, og allskonar rugli. Ég hef reyndar komist að því síðan að henni finnst allt sem er ekki eins og það sem hún sjálf notar frekar glatað.

Eina ráðið er auðvitað að fara sjálfur og skoða þær rannsóknir sem hafa verið gerðar, skoða hvaða aðferðum hefur verið beitt og hverjar niðurstöðurnar hafa verið. Ég fór yfir fjölmargar rannsóknir á tengslum einhverfu og mataræðis en því miður eru þær allar háðar einhverjum veikleikum. Til dæmis kom út rannsókn árið 2010 þar sem rannsakendur höfðu sent spurningalista á 248 foreldra einhverfra barna og þeir spurðir um val þeirra á óhefðbundnum meðferðum (breytt mataræði er þekkt sem ein af fjölmörgum „alternative treatments“). Um 30% (73) foreldra höfðu prófað að taka út ákveðnar fæðutegundir  og af þeim sögðust um 55% hafa séð miklar eða einhverjar framfarir hjá barninu sínu en um 36% sögðust ekki hafa séð neinar breytingar. 4% sögðu að barnið hefði versnað og restin svaraði ekki spurningunni. Þegar þessar rannsóknarniðurstöður eru skoðaðar ber að hafa í huga að yfir 80% foreldra höfðu væntingar um að breytt mataræðið myndi breyta hegðun barna þeirra sem getur haft áhrif á niðurstöður.

Tvær rannsóknir sem breski fræðimaðurinn Paul Whiteley hefur gert hafa sýnt fram á tölfræðilega marktækt bætta hegðun einhverfra barna (bætt hegðun á t.d. við um að börnin tali meira og almennt bættir samskiptahæfileikar) eftir að þau hættu að neyta glútens og mjólkurvara. Í fyrri rannsókninni vissu foreldrar og kennarar hvað var verið að rannsaka sem getur hafa haft áhrif á niðurstöður og þar var ekki notaður samanburðarhópur. Í seinni rannsókninni var 72 börnum skipt uppí tvo hópa þar sem annar hópurinn var settur á sérstakt mataræði (út með glúten og mjólkurvörur) en ekki hinn, en hvorki foreldar né þeir sem mældu árangur vissu hvaða börn voru í hverjum hópi (randomized double blind measures trial). Rannsakendur lögðu fyrir mörg próf og þrátt fyrir að flest þeirra sýndu fram á bætta hegðun rannsóknarhópsins (þau sem voru á sérstöku mataræði) var aðeins eitt próf tölfræðilega marktækt. Jafnfræmt hættu 11 börn í rannsóknarhópnum í rannsókninni vegna þess að foreldrar þeirra sáu engan mun á hegðun og fannst þetta of mikið vesen. Svipuð rannsókn kom út árið 2006 þar sem 15 börnum var skipt í tvo hópa og foreldar vissu ekki hvort barnið þeirra var í rannsóknarhópnum. Sú rannsókn sýndi líka að hópurinn sem var á sérstöku mataræði sýndi bætta hegðun en þar sem úrtakið var mjög lítið var sá munur ekki tölfræðilega marktækur.

Þessi samantekt hér að ofan er orðin aðeins fræðilegri en hún átti að vera en ég er samt að einfalda efnið alveg helling. Ég er til dæmis hér aðeins að fjalla um þær rannsóknir sem hafa skoðað tengsl á milli þess að taka út glúten og mjólkurvörur og hegðun barnanna. Rannsóknir hafa vissulega verið margskonar,  í sumum var t.d. gert ofnæmispróf á einhverfum börnum, þvag þeirra mælt og annað slíkt. Niðurstöður þessara rannsókna hafa líka verið frekar “inconclusive” (man ekki alveg rétta íslenska orðið, mismunandi rannsóknir hafa sýnt fram á aðeins mismunandi niðurstöður).

Í stuttu máli leiðir mín samantekt í ljós að tengsl mataræðis við einhverfu hafa ekki verið „afsönnuð“ né „sönnuð“. Við höfum haft áhyggjur af meltingu Egils í frekar langan tíma en okkur verið sagt af lækni að ef að hann sé hraustur ættum við ekki að spá meira í það. Við höfum tekið ákvörðun um að gera breytingar á mataræði Egils. Við ætlum samt að hitta lækninn hans fyrst og fara yfir þessi mál með henni. Egill er nú þegar mjög matvandur og ef að þetta verður til þess að hann fari að borða minna en hann gerir núna gæti það auðvitað verið slæmt.

Egill byrjaði nýlega í skóla sem við höfum mikla trú á en í skólanum er matur í boði Board of Special Education í New York borg. Eftir að hafa farið yfir matseðilinn höfum við komust að því að börnunum er aðallega boðið uppá hveiti og sykur. Á síðasta fimmtudag fengu börnin pönnukökur í hádegismat og kex í kaffinu. Annars er yfirleitt pizza eða hamborgarar í hádegismat og einhverskonar sætabrauð í kaffinu. Hvernig sem við tökum á þessu með mataræðið hans Egils þá mun hann að minnsta kosti kom með nesti í skólann frá og með mánudeginum.

This entry was posted in Einhverfa. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *